Bílakjallarinn
Í samræmi við nýtt deiliskipulag svæðisins er bílastæðakjallarinn í Hlíðarhorni leigukjallari sem rekinn er á grundvelli samnýtingar. Bílastæðakjallarinn verður rekinn af rekstrarfélagi í eigu S8 ehf. og munu íbúar stjórna aðgangi sínum á „mínum síðum“ á þar til gerðu vefsvæði.
Markmiðið er að útleiga bílastæða þjóni þörfum íbúa fyrir bílastæði. Vegna ákvæða í deiliskipulagi munu aðrir geta nýtt bílastæðakjallarann á dagtíma eftir því sem rými leyfir en þó ekki á kostnað íbúa. Markviss stýring aðgangs og umferðar verður tryggð með vönduðu aðgangsstýringarkerfi.
101 stæði
Bílastæði í bílastæðakjallara eru 101 talsins. Íbúar geta tryggt sér aðgang að bílastæðakjallara með 12 mánaða leigusamningi og eiga þá forgang að stæði frá 17:00 til 9:00. Mánaðargjaldið er áætlað 19.900 kr. Bílastæðakjallarinn verður opinn öðrum á daginn (9:00-17:00) ef laus stæði eru til staðar og er þá innheimt tímagjald sem áætlað er 450 kr/klst.
Eftir kl 17:00 er bílastæðakjallarinn eingöngu ætlaður íbúum og verður aðgengi að honum stýrt. Aðgengi að hleðslustöðvum í kjallara fylgir eingöngu langtímaleigusamningi og greitt er fyrir hleðslurafmagn skv. gjaldskrá en hleðslutæki verða í eigu S8 ehf.
3 deilibílar
Í bílastæðakjallara er einnig gert ráð fyrir 3 deilibílum. Notkun deilibíla mun verða skv. gjaldskrá og skilmálum deilibílaleigu. Framboði deilibíla verður stýrt samkvæmt eftirspurn og mun ekki hefjast fyrr en allir stigagangar eru fullbyggðir og komnir í notkun.
Tekjur standa undir rekstri og viðhaldi
Tekjur sem innheimtar verða fyrir almenn opin stæði munu ganga til reksturs bílastæðakjallara. Verði heildartekjur hærri en almennur rekstrarkostnaður (orkunotkun, fasteignagjöld, tryggingar, aðgangsstýring, viðhald o.þ.h.) kemur jákvæður mismunur til lækkunar á langtímaleigugjöldum íbúa næsta árs.